Háskóli Íslands

Málsmeðferð og viðurlög í samkeppnisrétti

Tími: 24. nóvember 2016, kl. 16.30-19.30.

Kennari: Ásgeir Einarsson, lektor við Lagadeild HÍ og aðstoðarforstjóri Samkeppniseftirlitsins.

Staðsetning: Nánar auglýst síðar.

Skráning

Ákvæði samkeppnislaga veita Samkeppniseftirlitinu víðtækar heimildir til að rannsaka samkeppnismál. Eftirlitið getur framkvæmt húsleitir og lagt fyrir fyrirtæki og opinbera aðila að veita upplýsingar og afhenda gögn. Jafnframt er Samkeppniseftirlitinu falið ákveðið mat um hvort kvartanir frá fyrirtækjum gefi tilefni til rannsóknar og eftirlitið getur forgangsraðað málum í meðferð. Rannsóknum Samkeppniseftirlitsins getur lokið með ákvörðun þar sem viðurlög eru lögð á brotleg fyrirtæki og eftir atvikum fyrirmælum beint til þeirra sem hafa áhrif á hegðun þeirra eða skipulag. Einnig getur málum lokið með sátt þar sem fyrirtæki fallast á að greiða stjórnvaldssekt og breyta háttsemi sinni. Hefur slíkum niðurstöðum farið fjölgandi.

Bæði fyrirtæki sem kvarta yfir samkeppnishömlum og þau sem sæta rannsókn geta haft mikilla hagsmuna að gæta vegna bæði málsmeðferðar Samkeppniseftirlitsins og lokaniðurstöðu. Ákvæði stjórnsýslulaga veita málsaðilum tiltekin réttindi sem skýrð hafa verið nánar í framkvæmd Samkeppniseftirlitsins og í úrlausnum áfrýjunarnefndar samkeppnismála og dómstóla. Álitamál hafa komið upp að hvaða marki fyrirtæki geti notið þeirra réttinda sem mælt er fyrir um í Mannréttindasáttmála Evrópu og reynt hefur á ýmsa þætti sem tengjast álagningu stjórnvaldssekta. 

Í námskeiðinu verður leitast við að gefa heildstætt yfirlit um mikilvæga þætti sem varða málsmeðferð og viðurlög í samkeppnismálum. Eftirfarandi verður m.a. tekið til skoðunar:

•    Nýtur fyrirtæki sem sætir rannsókn samkeppnisyfirvalda sama þagnarréttar og einstaklingur sem sætir rannsókn í sakamáli?
•    Geta uppljóstrarar notið nafnleyndar í samkeppnismálum?
•    Getur grunað fyrirtæki lokið máli með sátt við Samkeppniseftirlitið án þess að viðurkenna brot?
•    Er unnt að leggja stjórnvaldssekt á lögpersónu A vegna aðgerða lögpersónu B?
•    Getur sá sem kaupir fyrirtæki þurft að greiða stjórnvaldssekt vegna aðgerða þess undir eldra eignarhaldi?
•    Hvenær getur Samkeppniseftirlitið brotið upp fyrirtæki?

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is