Háskóli Íslands

Um textahyggju, merkingu og inntak lagaákvæða

Málstofa Lagastofnunar í samvinnu við Heimspekistofnun Háskóla Íslands
Miðvikudaginn 14. maí, kl. 12-13.15, Lögbergi, stofu 201

Auglýsing á pdf
Hrafn ÁsgeirssonHrafn Ásgeirsson flytur framsöguerindi. Samkvæmt textahyggju (e. textualism) er inntak lagaákvæðis í grófum dráttum sú merking sem skynsamur einstaklingur myndi, að gefnum viðeigandi upplýsingum um samhengi og annað, ætla að texti þess bæri. Fátt er þó um eiginleg rök fyrir þessu viðhorfi og í erindinu færir Hrafn því ein slík, en þeim til grundvallar liggja ýmsar framfarir sem orðið hafa í málspeki og málvísindum varðandi tengsl texta og þeirrar merkingar sem hann ber.

Hrafn notar þessar hugmyndir síðan til þess að varpa ljósi á tiltekin álitamál varðandi textahyggju og beitingu hennar. Hann færir rök fyrir því að þær geti nýst textahyggjusinnum annars vegar til þess að svara ásökunum um ósamræmi í dómaframkvæmd og hins vegar til þess að svara gagnrýni sem svokölluð skilningshyggja (e. conception-textualism, originalism) hefur undanfarið sætt. Þá ræðir hann stuttlega rök bandaríska hæstaréttardómarans Antonin Scalia fyrir skilningshyggju.

Hrafn Ásgeirsson er doktor í réttarheimspeki frá University of Southern California. Hrafn er nýdoktor við Heimspekistofnun Háskóla Íslands, en hefur einnig sinnt rannsóknum við Monash University í Melbourne í Ástralíu. Þá kennir hann réttarheimspeki við lagasvið Háskólans á Bifröst.
Fundarstjóri er Hafsteinn Þór Hauksson, lektor við lagadeild Háskóla Íslands.
 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is