Háskóli Íslands

Ritröð Lagastofnunar hefur göngu sína

Lagastofnun Háskóla Íslands hefur nú hafið útgáfu ritraðar. Markmiðið með útgáfunni er að gefa út lengri fræðilegar ritgerðir um lögfræðileg efni, sem eru síður til þess fallnar að birtast í hefðbundnum lögfræðitímaritum á borð við Tímarit lögfræðinga og Úlfljót. Útgáfa ritraðarinnar er þannig fyrst og fremst hugsuð til þess að koma á framfæri efni, sem hefur fræðilegt og hagnýtt gildi fyrir lögfræðinga og aðra, en yrði e.t.v. ekki gefið út ella. Þá er einnig gert ráð fyrir að rit, sem eru afrakstur rannsókna í lögfræði, en ekki tilbúin til endanlegrar útgáfu, verði í ritröðinni. Slíkt er þekkt hjá rannsóknastofnunum í lögfræði á öðrum Norðurlöndum.

Fyrsta ritið í ritröðinni, sem kom út í desember sl., er ritgerð eftir Jóhannes Karl Sveinsson hrl. á sviði verktakaréttar, nánar til tekið um viðbótarkröfur verktaka í verksamningum. Í ritgerðinni er að finna yfirlit um íslenska réttarframkvæmd á þessu sviði og dregnar ályktanir um gildandi reglur af íslenskum dómsúrlausnum. Reynt er að skýra og greina þau atvik sem geta veitt verktaka heimild til viðbótarkrafna. Hagnýtt gildi ritgerðarinnar er því ótvírætt fyrir lögmenn, lögfræðinga, verkfræðinga og aðra tæknimenn sem starfa á þessu sviði, enda oftar en ekki sem ágreiningur rís um þessi atriði í verktakasamningum.

Verð hvers rits verður ákveðið sérsaklega, enda verða þau mismunandi að stærð. Útgáfan verður ekki regluleg, heldur einungis gefin út rit þegar tilefni er til. Engin fjárhagsleg skuldbinding fylgir áskrift, nema að kaupa þau hefti sem gefin verða út.

Þeir sem viljast gera áskrifendur eru beðnir um að senda tölvupóst til Lagastofnunar á netfangið lagastofnun@hi.is, þar sem nafn greiðanda, kennitala og heimilisfang er tilgreint.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is