Háskóli Íslands

Stefna Lagastofnunar 2012-2016

Stefna Lagastofnunar 2012-2016

Rannsóknir eru nauðsynlegar fyrir háskólasamfélagið, fræðimenn, kennara, háskólanema og fyrir samfélagið í heild. Færni til rannsókna er ekki meðfædd kunnátta heldur hæfni sem háskólastofnanir þurfa að hlúa að, þjálfa og styðja við. Vegna vægis rannsókna og beinna tengsla við kennslu í bæði grunn- og framhaldsnámi, eru rannsóknir mikilvægur hluti af skyldum kennara lagadeildar.

Það er m.a. hlutverk Lagastofnunar að leggja af mörkum til háskólasamfélagsins og þjóðfélagsins með því að stunda rannsóknir í lögfræði sem jafnast á við það besta á alþjóðavettvangi. Það er engu að síður mikilvægt að Lagastofnun afli sér viðurkenningar, bæði á Íslandi og erlendis, fyrir að vera stofnun sem sérhæfir sig í rannsóknum á lögfræði í hæsta gæðaflokki. Rannsóknir eru mikilvægar fyrir kennslu og rannsóknastefna Lagastofnunar verður að miðast við víðtækt hlutverk sem ein af æðstu menntastofnunum á Íslandi.

Það er staðreynd að Lagastofnun stendur frammi fyrir ákveðnum takmörkunum, vegna takmarkaðs mannafla og fjárráða. Því getur verið nauðsynlegt að leggja meiri áherslu á tiltekin rannsóknasvið á hverjum tíma, sér í lagi á sviðum sem eru mikilvæg fyrir Ísland og þar sem mögulegt er að vera í fararbroddi. Þessi svið eru m.a. auðlindaréttur, orkuréttur, umhverfisréttur, refsiréttur, fjármálaréttur og EES réttur.  

Í því skyni að ná markmiðum sínum, þarf Lagastofnun að hvetja til og styðja hágæða rannsóknir með tvenns konar nálgun: 

1) Flytja þekkingu til Íslands samhliða því að hlúa stöðugt að þróun íslensks réttarkerfis og
2) Flytja út þekkingu frá Íslandi og stuðla að alþjóðlegri miðlun og vísindagildi

Af framangreindum ástæðum, er það stefna Lagastofnunar að miðla til fræðasamfélagsins og þjóðfélagins með rannsóknum, útgáfum og dreifingu rannsóknaniðurstaðna í hæsta alþjóðlega gæðaflokki, innanlands og utan. Verður það gert með því að leggja áherslu á eftirgreinda þætti:

1. Rannsóknir sem eru mikilvægar fyrir íslenskt samfélag
Rannsóknir á öllum sviðum lögfræði eru mikilvægar. Engu að síður eru ákveðin svið þjóðfélagslega mikilvægari en önnur og getur það verið mismunandi á hverjum tíma hver þau eru.

Á vegum Lagastofnunar eru starfandi tvær rannsóknastofur:
-    Rannsóknastofa í Evrópurétti  
-    Rannsóknastofa í umhverfis- og auðlindarétti

Hefur verið lögð áhersla á þessi rannsóknasvið og verður svo áfram. Stefnt er að því að auka rannsóknir á fjármálamarkaði og fjármálaeftirliti sem verða fjármagnaðar með samningum við utanaðkomandi aðila og styrkjum úr samkeppnissjóðum. Þessu tengt verður lögð aukin áhersla á rannsóknir í refsirétti, sér í lagi efnhahagsbrot, og rannsóknir á mannréttindum og þannig stutt við doktorsnám.

2. Skilgreining á hágæða rannsóknum
Til að ná því markmiði að auka gæði rannsókna þarf stofnunin í samvinnu við lagadeild að skilgreina hvað afburðarannsóknir fela í sér, bæði út frá íslenskum og alþjóðlegum viðmiðum.

3. Úgáfa
Útgáfa er mikilvægur hluti af starfsemi Lagastofnunar til að miðla rannsóknaniðurstöðum opinberlega.
Ritröð Lagastofnunar hefur komið út frá árinu 2005 og eru 1-2 hefti gefin út árlega um mismunandi efni. Þar geta fræðimenn komið á framfæri lengri ritgerðum og rannsóknaniðurstöðum.
Nýtt útgáfuverkefni er í undirbúningi, bók um íslenska löggjöf  á ensku fyrir alþjóðlegan markað eftir kennara lagadeildar. Bókin verður á prentuðu og rafrænu formi og ráðgert að einstakar greinar megi nálgast á gagngrunni svo sem eins og HeinOnline. Í framhaldi er stefnt að útgáfu árbókar á íslensku og ensku um  íslenska löggjöf, sem eingöngu yrði aðgengileg á rafrænu formi. Með þessum útgáfum er rannsóknum íslenskra fræðimanna í lögfræði komið á framfæri erlendis.

4. Sókn í innlenda og erlenda rannsóknasjóði
Mikilvægt er að fjármagna rannsóknir með utanaðkomandi styrkjum til að:
-    Styrkja fjárhagsstöðu Lagastofnunar til að geta ráðið starfsfólk til að sinna rannsóknaverkefnum
-    Styðja við rannsóknaskyldur kennara lagadeildar
-    Byggja upp samstarfsnet um rannsóknaverkefnfni innanlands og utan
-    Skapa tækifæri fyrir nemendur í grunn-, framhalds- og doktorsnámi
Lagastofnun hefur umsjón með og styður kennara og sérfræðinga við að sækja um styrki í samkeppnissjóði, svo og aðra sjóði sem styðja við rannsóknir.

5. Þátttaka nemenda í rannsóknum
Stuðningur við rannsóknarstörf útskrifaðra framhalds- og  doktorsnema og aðstoð við doktorsnema er mjög mikilvægur. Meistararitgerðir þurfa í auknum mæli að verða hluti af rannsóknaverkefnum og eins þarf að leitast við að áframhald verði á rannsóknum sem hefjast með vinnu við meistararitgerðir.
Rannsóknasjóður Háskóla Íslands styður við slík markmið með styrkjum til launagreiðslna aðstoðarfólks við rannsóknir. Þjálfun næstu kynslóðar vísindafólks er í gegnum doktorsnám. Leiðbeinendur miðla kunnáttu og þekkingu og mismunandi aðferðafræði við rannsóknir í lögfræði með því að þjálfa rannsakendur við að skipuleggja, útfæra og fjármagna rannsóknaverkefni sem leiðir af sér sjálfstæða fræðimenn.

6. Samstarf við fræðimenn annarra sviða og innlendar og erlendar stofnanir
Virkt samstarf við fræðimenn á öðrum fræðasviðum, svo sem til dæmis afbrotafræði, hagfræði, viðskiptafræði, opinberri stjórnsýslu, stjórnmálafræði og félagsráðgjöf, verður sífellt mikilvægara. Stærri rannsóknaverkefni krefjast þverfaglegrar og alþjóðlegrar samvinnu.
Lagastofnun skoðar að koma á virkum samstarfsnetum innanlands og utan til að auka þekkingu og hæfni í rannsóknum og til að bæta möguleika í styrkjasókn.

7. Fundir, málstofur og ráðstefnur
Eitt af hlutverkum Lagastofnunar er að kynna niðurstöður rannsókna og gangast fyrir fyrirlestrum í lögfræði. Stofnunin hefur auk þess staðið fyrir innlendum og alþjóðlegum ráðstefnum þar sem sérfræðingar stofnunarinnar og lagadeildar geta deilt kunnáttu sinni meðal annarra sérfræðinga og þjóðfélagsins.

8. Lögfræðilegar þjónusturannsóknir
Lagastofnun sinnir verkefnum þar sem þörf er rannsókna fyrir opinbera stjórnsýslu, stofnanir, lögmannsstofur, félagasamtök og einkaaðila. Niðurstöður geta verið í formi álitsgerða, skýrslna eða jafnvel lagafrumvarpa. Slík verkefni styrkja fjárhag stofnunarinna.

Í slíkum rannsóknarverkefnum er fyllsta hlutleysis gætt, akademískt frelsi í hávegum haft og eingöngu faglegt mat lagt til grundvallar niðurstöðum. Þátttaka í vinnu við gerð lagafrumvarpa og álitsgerðir sem varpa ljósi á flókin lögfræðileg mál, er hluti af því að sinna þjóðfélagslegum þörfum.

9. Endurmenntun lögfræðinga
Eitt af hlutverkum Lagastofnunar er að gangast fyrir námskeiðum i lögfræði. Til skoðunar er að skipuleggja endurmenntunarnámskeið fyrir útskrifaða lögfræðinga á vegum Lagastofnunar á markaðsforsendum. Í fyrstu verður lögð áhersla á svið þar sem réttarþróun hefur verið hröð á undanförnum árum og því nauðsynlegt fyrir sérfræðinga til að uppfæra menntun sína svo sem eins og í Evrópurétti. Námskeiðunum er ætlað að vera hagnýt og markviss fyrir starfandi lögfræðinga, lögmenn og dómara.

10. Vefsíða á íslensku og ensku
Sífellt er mikilvægara að gera vísindamenn og stofnanir sýnilegar á netinu. Því þarf Lagastofnun að halda úti öflugum vef með upplýsingum á íslensku og ensku um starfsemi og rannsóknir stofnunarinnar.

 

 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is