Háskóli Íslands

Úthlutun aflaheimilda á Íslandi, Noregi og Nýja-Sjálandi - Doktorsverkefni

Um rannsóknina
Fiskveiðar í atvinnuskyni hafa umtalsverða efnahagslega þýðingu á Íslandi og í sögulegu samhengi hefur nýting fiskveiðiauðlindarinnar í Noregi verið mikilvæg, sérstaklega í tilteknum landshlutum. Bæði þessi norrænu ríki hafa stýrt veiðum sínum með aflamarkskerfi eða sem í daglegu máli kallast kvótakerfi. Nýsjálendingar hafa einnig stuðst við slíkt kerfi við stjórn sinna fiskveiða en það kerfi hefur um langt skeið verið ítarlega rannsakað á fræðilegum vettvangi, sérstaklega á meðal fiskihagfræðinga.

Orsakir þessa akademíska áhuga á nýsjálenska kerfinu, en fiskveiðar í atvinnuskyni hafa þar í landi ekki umtalsverða efnahagslega þýðingu, er sú að aflaheimildir eru skýrlega skilgreindar sem einstaklingsbundnar og framseljanlegar heimildir. Aflaheimildir í Nýja–Sjálandi eru því í grundvallaratriðum eins og hver önnur eignarréttindi en sá lagalegi skilningur er jafnan ekki lagður til grundvallar á Íslandi og í Noregi.

Doktorsverkefninu er ætlað að varpa ljósi á úthlutun aflaheimilda í þessum þrem fiskveiðistjórnunarkerfum og bera réttarreglur um þetta efni saman. Sú kenning er lögð til grundvallar við vinnslu verkefnisins að úthlutunin í öllum ríkjunum þrem sé „dínamísk“, þ.e. að veruleikinn sé sá að löggjafarvaldið, eða eftir atvikum stjórnvöld, breyta reglum um úthlutun aflaheimilda með reglulegu millibili þannig að hlutfallslegur réttur hvers og eins í kerfinu taki breytingum, án þess að skaðabætur fyrir slíkt séu greiddar af hálfu hins opinbera. Þetta þýðir með öðrum orðum að þeir sem fara með opinbert vald á þessu sviði setja reglur sem hafa þær afleiðingar að fiskveiðiréttindi sé færð frá aðila A til aðila B. Jafnan eru engar bætur greiddar vegna þessara opinberru tilfærslu fiskveiðiréttinda.

Tilfærslur af þessu tagi gefa til kynna að algengar hugmyndir um að úthlutun kvóta í kvótakerfum sé ákveðin með tilteknu hætti í upphafi kerfisins og sé síðan óumbreytanleg stærð, gangi ekki upp. Af þessu leiðir að rýna þarf í ýmis lagaleg álitamál með þessa „dínamík“ að leiðarljósi. Í fræðiskrifum og jafnvel í úrlausnum dómstóla, hefur verið horft framhjá eða gert lítið úr vægi dínamísku eðli þessara kvótakerfa en slík nálgun er ónákvæm og í ósamræmi við þann veruleika sem mótast hefur í rekstri þessara þriggja kvótakerfa.

Afar þýðingarmikið er því að kortleggja þróun reglna um úthlutun aflaheimilda í þessum þrem ríkjum svo að málefnalegri skoðun fáist á mikilvægum spurningum er lúta að vægi og áhrifum grundvallarreglna á borð við eignarétt og jafnræði fyrir lögum fyrir undirstöður fiskveiðiréttinda í kvótakerfum af þessu tagi.

Stefnt er að því að verkefninu ljúki fyrir árslok 2015.

Þátttakendur
Rannsóknin er Ph.D. verkefni Helga Áss Grétarssonar dósents við Lagadeild HÍ. Leiðbeinandi er Skúli Magnússon héraðsdómari og dósent við Lagadeild HÍ.

Fjármögnun
Rannsóknasjóður Bjarna Benediktssonar veitti einnar milljón króna styrk til rannsóknarinnar.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is