
Þann 12. október sl. fór fram sameiginlegt málþing Lagastofnunar og Húseigendafélagsins í tilefni af 100 ára afmæli félagsins. Húseigendafélagið var upphaflega málsvari leigusala en hefur þróast í að verða almennt hagsmunafélag húseigenda og eru félagsmenn þess um tíu þúsund talsins. Með hliðsjón af starfsemi félagsins voru ýmis lögfræðileg málefni á dagskrá málþingsins, m.a. atriði sem varða fjöleignarhúsa-, grenndar- og nábýlisrétt. Sérstakur heiðursgestur málþingsins var Jóhanna Sigurðardóttir fyrrverandi forsætisráðherra og áður félagsmálaráðherra.
Opnunarerindi málþingsins hélt Sigurður Helgi Guðjónsson formaður Húseigendafélagsins sem fjallaði m.a. um sögu félagsins. Þá héldu erindi, í eftirfarandi röð, Tinna Andrésdóttir lögfræðingur, Víðir Smári Petersen dósent við Lagadeild HÍ og Pétur Ármannsson arkitekt, en erindin fjölluðu m.a. um grennd og nábýlisrétt og önnur viðfangsefni tengd starfsemi Húseigendafélagsins. Loks var fjallað um framtíðarsýn félagsins í erindi Hildar Ýr Viðarsdóttur varaformanns Húseigendafélagsins og aðjunkts við Lagadeild HÍ.