Header Paragraph

Auglýst eftir meistaranemum í rannsóknaraðstoð á vormisseri 2023

Image
""

Auglýst er eftir meistaranemum við Lagadeild Háskóla Íslands í rannsóknaraðstoð á vormisseri 2023. Rannsóknaraðstoðin er metin til eininga og gert er ráð fyrir að umfang vinnunnar nemi 6 ECTS einingum.

Um er að ræða tvær stöður í aðstoð við rannsóknir á sviði rafrænnar stjórnsýslu og upplýsingaréttar. Aðstoðin felst í gagnaöflun, greiningu og yfirferð á rannsóknarniðurstöðum. Viðfangsefnin falla undir Rannsóknarstofu í stjórnsýslurétti, sem er rannsóknarstofa á vegum Lagastofnunar. Umsjónarmaður er Trausti Fannar Valsson dósent. 

Umsóknafrestur er til og með miðvikudagsins 25. janúar.

Umsóknum skal beint til Lagastofnunar á netfangið lagastofnun@hi.is. Við mat á umsóknum er m.a. litið til námsárangurs og annarra atriða sem máli geta skipt. Leitast verður við að svara umsóknum eigi síðar en föstudaginn 27. janúar. Áskilinn er réttur til að hafna öllum umsóknum.

Nánari upplýsingar veitir Friðrik Árni Friðriksson Hirst framkvæmdastjóri Lagastofnunar (faf@hi.is).

Reglur um aðstoð meistaranema Lagadeildar HÍ á vegum Lagastofnunar

Reglur um aðstoð meistaranema Lagadeildar Háskóla Íslands við rannsóknir á vegum Lagastofnunar Háskóla Íslands.

Samþykktar á deildarfundi í Lagadeild 30. janúar 2018.

1. gr.
Við upphaf hvers námsmisseris er heimilt að birta auglýsingu á heimasíðum Lagadeildar og Lagastofnunar, og eftir atvikum með öðrum hætti, þar sem óskað er eftir laganemum í meistaranámi til að aðstoða við rannsóknastörf á vegum Lagastofnunar. Í auglýsingu má tilgreina ákveðnar rannsóknir og viðfangsefni á sviði lögfræði, svo og önnur atriði eftir því sem ástæða þykir til.

Umsóknum skal beint til Lagastofnunar. Umsækjanda er heimilt að tilgreina fræðileg áhugasvið sín í umsókn og önnur atriði sem málið varða, sbr. meðal annars 3. gr.

2. gr.
Þegar umsóknir liggja fyrir skal Lagastofnun úthluta hverjum nemanda umsjónarmanni. Umsjónarmaður skal uppfylla sömu kröfur og gerðar eru til leiðbeinenda með ritgerðum í Lagadeild. Áður en úthlutun fer fram skal Lagastofnun hafa náið samráð við væntanlegan umsjónarmann um það hvernig kraftar nemenda verði nýttir með sem bestum hætti, með tilliti til yfirstandandi og fyrirhugaðra rannsókna og annarra verkefna á hverjum tíma.

Að jafnaði skal ekki greitt fyrir umsjón samkvæmt reglum þessum. Þó getur stjórn Lagastofnunar ákveðið að stofnunin greiði fyrir umsjón ef efni standa til.

Umsjónarmaður ber faglega ábyrgð á viðkomandi nemanda og sér um að skilgreina þau verkefni sem fela í sér rannsóknaraðstoð í skilningi reglna þessara. Rannsóknaraðstoð getur t.d. falist í öflun, greiningu og úrvinnslu lögfræðilegra heimilda, ritun, yfirlestur og rýni fræðitexta, álitsgerða eða dómareifana, frágangi á heimildatilvísunum, skráagerð o.fl. Leitast skal við að fela hverjum nemanda verkefni sem eru til þess fallin að auka þekkingu og innsýn nemanda í lögfræðilegar rannsóknir og akademísk vinnubrögð.

3. gr.
Nemandi fær að hámarki 6 ECTS einingar fyrir rannsóknaraðstoð samkvæmt þessum reglum með því skilyrði að hún uppfylli tilskildar gæðakröfur að mati umsjónarmanns. Rannsóknaraðstoð skal metin í klukkustundum og miða skal við að 160 stunda vinna sé metin til 6 ECTS eininga. Heimilt er að meta rannsóknaraðstoð til 2 eða 4 ECTS eininga og breytist þá tímafjöldinn að baki sem því nemur.

Nemandi skal halda skrá yfir vinnu sem hann innir af hendi vegna rannsóknaraðstoðar á þar til gerðu eyðublaði Lagastofnunar. Skráin skal geyma nákvæmar upplýsingar um fjölda vinnustunda og lýsingu á vinnu sem skulu sundurgreindar eftir dögum. Umsjónarmaður getur á hvaða stigi sem er óskað eftir því að fá að kynna sér skrána.

Á námsyfirliti skal vinna nemanda, sem hann fær einingar fyrir samkvæmt þessum reglum, auðkennd svo: Rannsóknaraðstoð á vegum Lagastofnunar.

Nemandi getur ekki fengið meira en samtals 12 ECTS einingar metnar fyrir námsvist, aðstoðarkennslu og aðstoð við rannsóknastörf samkvæmt reglum þessum.

4. gr.
Um mat á aðstoð meistaranema við rannsóknir fer samkvæmt reglum um námsvist nemenda í framhaldsnámi við lagadeild Háskóla Íslands samkvæmt 6. mgr. 93. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands.

5. gr.
Reglur þessar öðlast gildi frá og með 30. janúar 2018.