Header Paragraph

Málþing um íslenska forystu alþjóðadómstóla

Image
Íslensk forysta albjóõadómstóla: Reynsla, áskoranir og framtíðarsýn

Í tilefni af 50 ára afmælis Lagastofnunar hélt stofnunin málþing í Hátíðasal HÍ 9. október sl. þar sem þrír dómsforsetar við alþjóðlega dómstóla - Páll Hreinsson, forseti EFTA-dómstólsins, Róbert R. Spanó, fyrrverandi forseti Mannréttindadómstóls Evrópu, og Tómas H. Heiðar, forseti Alþjóðlega hafréttardómsins - ræddu reynslu sína af störfum þar og áskoranir alþjóðlegra dómstóla í bráð og lengd. Benedikt Bogason forseti Hæstaréttar Íslands lauk málþinginu með stuttu erindi en stjórn málþingsins var í höndum Ásu Ólafsdóttur hæstaréttardómara.
 
Í setningarávarpi á málþinginu tók Jón Atli Benediktsson rektor fram að það væri ekki sjálfsagður hlutur að frá Íslandi hefðu valist lögfræðingar til forystu hjá svo stórum og virtum alþjóðlegum dómstólum. Þetta undirstrikaði hins vegar það öfluga starf sem fram færi á vettvangi Lagadeildar og Lagastofnunar og þá virðingu og það mikla traust sem lögfræðin í Háskóla Íslands nyti innan lands sem utan. Málþingið var vel heppnað og vel sótt eins og sjá má af meðfylgjandi myndum.