Header Paragraph

Málþing vegna útgáfu Eignaréttar III og 100 ára afmælis vatnalaga

Image
Málþing vegna útgáfu Eignaréttar III og 100 ára afmælis vatnalaga

Hinn 13. nóvember sl. stóð Lagastofnun fyrir málþingi í Hátíðasal í tilefni af útgáfu ritsins Eignaréttur III (Nýting auðlinda og fleiri réttarreglur tengdar fasteignum), en það er þriðja bindi heildarverks þeirra Þorgeirs Örlygssonar, Karls Axelssonar og Víðis Smára Petersen um íslenskan eignarrétt. Megin viðfangsefni ritsins eru auðlindir og auðlindanýting, þ.m.t. vatnsnýting. Málþingið var einnig haldið í tilefni af 100 ára afmæli vatnalaga nr. 15/1923 sem tóku gildi 1. janúar 1924 og þykja ein merkasta lagasmíð í sögu þjóðarinnar.

Málþingið hófst með ávarpi Benedikts Árnasonar ráðuneytisstjóra forsætisráðuneytisins. Að því loknu fluttu erindi Víðir Smári Petersen prófessor („Sögudrög vatnalaga“), Eyvindur G. Gunnarsson prófessor („Réttarpólitík vatnalaga“) og Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor („Breyttar áherslur við lagalega vernd og stýringu vatnsauðlindarinnar“). Jón Atli Benediktsson rektor sleit málþinginu með stuttu ávarpi, en stjórn málþingsins var í höndum Kristínar Benediktsdóttur, umboðsmanns Alþingis og fráfarandi formanns stjórnar Lagastofnunar.

Að málþinginu loknu var boðið upp á veitingar á neðri hæð Aðalbyggingar HÍ í boði Fons Juris og Landsvirkjunar.

Eins og sést á myndum sem fylgja þessari frétt var málþingið afar vel sótt og var Hátíðasalur nær fullsetinn.

Ritið Eignaréttur III er fáanlegt í Úlfljóti og Bóksölu stúdenta og gegnum vefverslun útgefandans, Fons Juris.

Image
Vatnalögin 100 ára

Myndir frá málþinginu