Gestir á ráðstefnu

Hinn 9. október 2025 stóð Lagastofnun ásamt Ragnheiði Elfu Þorsteinsdóttur, lektor við HA, fyrir ráðstefnu um fullveldi og náttúruauðlindir þar sem innlendir og erlendir sérfræðingar fjölluðu um ýmis álitaefni á þessu sviði. Á ráðstefnunni var sjónum nánar tiltekið beint að umræðu um eignarhald, auðlindastýringu og nýtingu náttúruauðlinda, þar á meðal eftirfarandi álitaefnum: Hvaða felur fullveldi ríkja yfir náttúruauðlindum í sér? Hverjir eiga, stjórna og njóta ávinnings af auðlindanýtingu innan lögsögu ríkja?  Á ráðstefnunni var einnig vikið að umræðu um nauðsyn stjórnarskrárbreytingar í þá veru að stjórnarskráin hafi að geyma ákvæði um náttúruauðlindir.

Meðal fyrirlesara voru Nico Schrijver, prófessor emeritus við háskólann í Leiden, en hann hefur verið leiðandi í rannsóknum á fullveldi ríkja yfir auðlindum sínum og auðlindastjórnun og Richard Barnes, prófessor við Lincoln-háskóla, sem er m.a. þekktur fyrir rannsóknir sínar á eignarrétti yfir auðlindum og rétti ríkja til nýtingar sjávarauðlindarinnar. 

Opnunarerindi hélt Guðni Th. Jóhannesson, prófessor og fyrrverandi forseti Íslands. Aðrir fyrirlesarar voru Hafsteinn Dan Kristjánsson, prófessor við HR, Kristinn Már Reynisson, lögfræðingur SVÞ, Páll Þórhallsson, skrifstofustjóri í forsætisráðuneytinu, Ragnheiður Elfa Þorsteinsdóttir, lektor við HA, og Snjólaug Árnadóttir, dósent við HR.

Ráðstefnunni lauk með erindi Daða Más Kristóferssonar fjármála- og efnahagsráðherra. Ráðstefnustjórar voru Aðalheiður Jóhannsdóttir, prófessor við HÍ, og Kári Hólmar Ragnarsson, dósent við HÍ.

Ráðstefnan var haldin í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafnsins. Ráðstefnan var á ensku og var streymt á netinu. Hér má finna upptöku frá ráðstefnunni.

Þess má geta að árið 1997 kom út ritið Sovereignty over Natural Resources: Balancing Rights and Duties eftir Nico Schrijver þar sem þróun hugtaksins varanlegt fullveldi yfir náttúruauðlindum er lýst frá því að vera pólitískt stefnumál til þess að verða meginregla að þjóðarétti. Þá hlaut Richard Barnes hSLS Birks bókaverðlaunin fyrir framúrskarandi fræðistörf á sviði lögfræði fyrir bókina Property Rights and Natural Resources (2009). Hann hefur einnig skrifað mikið á sviði þjóðaréttar og hafréttar. 

Atvinnuvegaráðuneytinu, fjármála- og efnahagsráðuneytinu og forsætisráðuneytinu eru færðar sérstakar þakkir fyrir framlag þeirra til ráðstefnunnar.

Nánari upplýsingar um framsöguerindi og dagskrá ráðstefnunnar má nálgast á viðburðasíðu HÍ.

Myndir frá málþinginu

Ráðstefna um fullveldi og náttúruauðlindir
Share