Header Paragraph

Vel sótt málþing um kolefnismarkaði

Image
Þátttakendur á málþinginu um kolenismarkaði.

Hinn 23. ágúst síðastliðinn stóð Lagastofnun fyrir málþingi í fyrirlestrasal Þjóðminjasafnsins um kolefnismarkaði og tengsl þeirra við skuldbindingar, löggjöf og stefnumótun í loftslagsmálum. Málþingið var haldið í samvinnu við Sjálfbærnistofnun Háskóla Íslands og var viðburðurinn styrktur af umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu, matvælaráðuneytinu og utanríkisráðuneytinu. 

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, flutti opnunarávarp málþingsins og vék þar meðal annars að mikilvægi þess að byggja upp traust á markaði með kolefniseiningar til að þeir gagnist í baráttunni við loftslagsbreytingar. 

Í kjölfarið hófst fyrri hluti málþingsins, þar sem fjallað var um viðskipti með kolefniseiningar í alþjóðlegu samhengi og helstu stefnur og strauma á alþjóðlegum kolefnismörkuðum. Þessum hluta dagskrárinnar var stýrt af Ash Sharma, stjórnanda hjá NEFCO, en auk hans tóku til máls Jonathan Wiener, prófessor í lögfræði, stjórnsýslu umhverfismála og opinberri stjórnsýslu við Duke University, Halldór Þorgeirsson, formaður Loftslagsráðs, Cathrine Wenger, lögmaður og ráðgjafi norskra stjórnvalda í loftslagsmálum, og Eve Tamme, sérfræðingur um kolefnismarkaði og alþjóðlegur ráðgjafi. 

Í síðari hluta málþingsins, sem fór fram á íslensku, fjölluðu innlendir sérfræðingar og fulltrúar stjórnvalda, atvinnulífsins og umhverfissamtaka, um kolefnismarkaði frá íslensku sjónarhorni, með áherslu á þróun viðskipta á valkvæðum kolefnismarkaði hér á landi. Fundarstjóri síðari hluta málþingsins var Aðalheiður Jóhannsdóttir, prófessor í umhverfis- og náttúruauðlindarétti við Lagadeild Háskóla Íslands. Erindi fluttu Hrafnhildur Bragadóttir, aðjúnkt og doktorsnemi við Lagadeild Háskóla Íslands, og Gunnar Sveinn Magnússon, yfirmaður sjálfbærniráðgjafar Deloitte. Auk þeirra tóku þátt í umræðum Helga Barðadóttir, umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti, Gunnlaugur Guðjónsson, Skógræktinni, Árni Finnsson, Náttúruverndarsamtökum Íslands, Edda Björk Ragnarsdóttir, Carbfix, Björgvin Stefán Pétursson, YGG Carbon, Guðmundur Sigbergsson, International Carbon Registry, og Reynir Smári Atlason, Creditinfo. 

Fjölmargir fylgdust með málþinginu, bæði í Þjóðminjasafninu og í vefútsendingu, og sköpuðust líflegar umræður um tækifæri og álitaefni sem fylgja kolefnismörkuðum og samspil þeirra við löggjöf og stefnumótun í loftslagsmálum hér á landi. 

Hægt er að horfa á upptöku frá málþinginu hér: Málþing um kolefnismarkaði 23. ágúst 2023