Erindi Lagastofnunar á Hringborði norðurslóða
Fulltrúar Lagastofnunar héldu erindi á málstofu á Hringborði norðurslóða (Arctic Circle Assembly) árið 2017. Málstofan fjallaði um lagaleg álitaefni sem tengjast uppbyggingu hafna hér á landi vegna atvinnustarfsemi á norðurslóðum.
Á málstofunni var sjónum beint að áformaðri uppbyggingu umskipunar- og iðnaðarhafnar í Finnafirði, Langanesbyggð, sem hefur verið í undirbúningi um nokkurra ára skeið. Finnafjarðarhöfn er jafnframt meðal þeirra atriða sem eru í brennidepli í yfirstandandi rannsóknarverkefni Lagastofnunar og Hagfræðistofnunar um innviði og atvinnustarfsemi á norðurslóðum.
Í verkefninu er t.a.m. tekið til skoðunar hvort fyrirhugað eignarhald og rekstrarfyrirkomulag Finnafjarðarhafnar samræmist íslenskum lögum, þar á meðal hafnalögum nr. 61/2003 með síðari breytingum. Ef fram fer sem horfir verður Finnafjarðarhöfn prófsteinn á ýmis atriði hafnalaganna sem ekki hefur áður reynt á með skýrum hætti og kann þá að reyna á ystu þolmörk laganna.
Mælendur á vegum Lagastofnunar voru Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Friðrik Árni Friðriksson Hirst, verkefnisstjóri hjá Lagastofnun og héraðsdómslögmaður hjá Juris lögmannsstofu.
Fyrirlestur Aðalheiðar fjallaði um íslenskar og evrópskar reglur um skyldu til að viðhafa umhverfismat vegna framkvæmda sem hafa áhrif á umhverfið og hvernig þær reglur horfa við stærri hafnarframkvæmdum.
Fyrirlestur Friðriks fjallaði um meginreglur hafnalaga nr. 61/2003, einkum um eignarhald og rekstrarform hafna, og hvaða áhrif þessar reglur geta haft á stærri hafnaruppbyggingarverkefni.
Á málstofunni héldu einnig erindi Lars Stemmler, framkvæmdastjóri erlendra verkefna hjá þýska hafnarrekstrarfyrirtækinu Bremenports, og James Pass, stjórnandi hjá Guggenheim Partners. Í erindum þeirra var m.a. gerð grein fyrir samstarfsverkefnum opinberra og einkaaðila (e. public-private partnerships) á sviði innviðauppbyggingar, þar á meðal um uppbyggingu hafna, en gengið er út frá því að Finnafjarðarhöfn verði útfærð sem slíkt samstarfsverkefni.
Ítarefni
- Hér má sjá glærukynningu Aðalheiðar sem bar heitið: Arctic Project Development: Testing the law? Legal challenges of large infrastructure project the example of the Finnafjord Port - Impact Assessment Regulations from a general point of view.
- Hér má sjá glærukynningu Friðriks sem bar heitið: Principles of the Icelandic Harbour Act no. 61/2003 and their application to large-scale port projects.