Rannsóknir

Rannsóknir eru nauðsynlegar fyrir háskólasamfélagið, fræðimenn, kennara, háskólanema og fyrir samfélagið í heild.

Rannsóknir stuðla að nýrri þekkingu sem er undirstaða alls háskólastarfs. Færni til rannsókna er ekki meðfædd kunnátta heldur hæfni sem háskólastofnanir þurfa að hlúa að, þjálfa og styðja við.

Vegna vægis rannsókna og beinna tengsla við kennslu í bæði grunn- og framhaldsnámi, eru rannsóknir mikilvægur hluti af skyldum kennara Lagadeildar.

 

Hlutverk Lagastofnunar í rannsóknum

Það er meðal annars hlutverk Lagastofnunar, sem er rannsóknastofnun á vegum Lagadeildar, að leggja af mörkum til háskólasamfélagsins og þjóðfélagsins með því að stunda rannsóknir í lögfræði sem jafnast á við það besta á alþjóðavettvangi.

Rannsóknir í lögfræði við Lagastofnun og Lagadeild, hafa það að markmiði að þjóna þjóðlífinu öllu í stað þess að einskorða sig við einstaka þætti þess. Samkvæmt því hefur verið lögð áhersla á að rannsóknir sem þar eru stundaðar, taki til sem flestra þátta lögfræðinnar og komi þannig flestum að notum.

Lagastofnun hefur markvisst unnið að því að efla rannsóknir og útgáfumál. Gerðir hafa verið samningar við stofnanir, félagasamtök og opinbera aðila um að styrkja rannsóknastöður um ákveðin verkefni.

 

Áhersla á rannsóknir

Áherslan undanfarin ár hefur verið á rannsóknir á sviði auðlinda- og umhverfisréttar, en Lagadeild hefur boðið upp á rannsóknatengt LL.M. nám á því sviði sem farið hefur saman við rannsóknirnar.

Sérfræðingar hafa starfað í fullu starfi við stofnunina undanfarin 6 ár, sem eingöngu sinna rannsóknum samkvæmt styrktarsamningum sem er einsdæmi innan Háskóla Íslands. Er ekki vafi á því að rannsóknir í lögfræði hafa eflst mjög með tilkomu sérfræðistarfanna og doktorsnámi sem komið var á laggirnar fyrir tæpum áratug.

 

Samvinna

Stofnunin hefur staðið fyrir rannsóknaverkefnum í samvinnu við lögmannsstofur og stofnanir. Laganemar og nýútskrifaðir lögfræðingar hafa fengið tækifæri til rannsóknastarfa við slík verkefni.