8. Réttarreglur um losun gróðurhúsalofttegunda
Höfundur: Hrafnhildur Bragadóttir lögfræðingur. Hrafnhildur vann rannsóknarverkefnið undir leiðsögn Aðalheiðar Jóhannsdóttur prófessors við lagadeild HÍ og var það styrkt af LEX lögmannsstofu.
Markmið ritgerðarinnar er að gera grein fyrir alþjóðlegum skuldbindingum Íslands í loftslagsmálum og áhrifum þeirra á íslenskan rétt. Hefur í þessu skyni einkum verið litið til skuldbindinga Kýótó-bókunarinnar um magntakmörkun á losun gróðurhúsalofttegunda og löggjafar Evrópubandalagsins í loftslagsmálum sem tekin hefur verið upp í EES-samninginn.
Þýðingarmesta aðgerð íslenska ríkisins til að efna alþjóðlegar skuldbindingar sínar á sviði loftslagsmála felst í setningu laga nr. 65/2007 um losun gróðurhúsalofttegunda. Lögin eru að ýmsu leyti óskýr og láta mikilvægum spurningum ósvarað.
Í ljósi þess hve mikla hagsmuni er um að tefla fyrir viðkomandi fyrirtæki hlýtur að teljast mikilvægt að á þessu verði gerð bragarbót sem fyrst, eftir atvikum með breytingu á lögunum sjálfum eða setningu reglugerða í samræmi við heimildir laganna.
Athygli vekur að íslenska ríkið hefur ekki fetað í fótspor nálægra ríkja og komið á fót innanlandsmarkaði með losunarheimildir.
Loks má nefna að engar ráðstafanir hafa enn verið gerðar til að heimila einstaklingum og lögaðilum að eiga viðskipti í evrópska viðskiptakerfinu með losunarheimildir. Í ritgerðinni eru færð rök fyrir því að íslenska ríkinu kunni að bera skylda til þess samkvæmt EES-samningnum.