10. Tvísköttunarsamningar og evrópskar skattareglur

Höfundar: Ragnheiður Snorradóttir hdl. LL.M. og Stefán Már Stefánsson prófessor.

Tvísköttunarsamningur felur að jafnaði í sér þjóðréttarsamning milli tveggja eða fleiri ríkja sem hefur það meginmarkmið að víkja frá almennum skattareglum hvors ríkis um sig í því skyni að koma í veg fyrir að sambærilegir skattar, hjá sama skattaðila, sem á eru lagðir á sama grundvelli og fyrir sama tímabil séu lagðir á tvisvar sinnum.

Tvísköttunarsamningar hafa þó venjulega fleiri markmið, t.d. upplýsingaskipti og veita þeir að jafnaði ívilnun frá gildandi skattalöggjöf aðildarríkis með tilteknum skilyrðum. Evrópskar skattareglur fjalla einkum um gerðir Evrópusambandsins á sviði beinna skatta og dóma dómstóls sambandsins varðandi fjórfrelsið.

Löggjöf ESB á sviði skattamála er þó ekki margbrotin. Sambærilegar reglur falla hins vegar utan EES- samningsins.

Reglur Evrópusambandsins um fjórfrelsið hafa einnig áhrif á skipan skattamála í aðildarríkjunum enda mega skattareglur aðildarríkjanna ekki brjóta í bága við þær. Fjórfrelsisreglurnar gilda einnig innan EES.

Í ritinu er einnig fjallað um gagnkvæma aðstoð og innheimtu í skattamálum. Reglur sem að því lúta er ýmist að finna í tilteknum þjóðréttarsamningum eða í löggjöf Evrópusambandsins.