14. Nauðgun

Höfundur er: Ragnheiður Bragadóttir prófessor við Lagadeild Háskóla Íslands.

Ritið er afrakstur yfirgripsmikilla rannsókna höfundar á lagaákvæðum um nauðgun.

Efni þess er tvíþætt. Í fyrri hluta er fjallað um ýmis almenn atriði sem eiga við um nauðgun og önnur brot gegn kynfrelsi fólks, þ.e. brotin í 194. ̶ 199. gr. hgl. Þetta eru ýmis álitaefni um lagarök og verndarhagsmuni, kynhlutleysi laganna og skilgreiningar á hugtökunum samræði og önnur kynferðismök, auk kafla um réttarsögulega þróun lagaákvæða um nauðgun.

Seinni hluti fjallar um eina tegund nauðgunar, þ.e. nauðgun skv. 1. mgr. 194. gr. hgl. Ítarlega er gerð grein fyrir verknaði og aðferðunum þremur: ofbeldi, hótunum og annars konar ólögmætri nauðung.

Lýst er tengslum ákvæðisins við önnur ákvæði hegningarlaga, huglægum skilyrðum, geranda og þolanda. Fjallað er um refsimörk, refsiákvörðun og refsimat. Fjölmargir dómar eru reifaðir til að varpa ljósi á einstaka þætti efnisins.  Í umfjöllun um einstök efnisatriði er einnig fjallað um norræna löggjöf og dóma og kannað hvernig norrænir fræðimenn skýra samsvarandi ákvæði í sínum rétti.

Leitast er við að setja viðfangsefnið í þjóðfélagslegt samhengi. Því er víða vísað í tölfræðilegar upplýsingar og niðurstöður rannsókna í afbrotafræði um umfang og eðli brotanna. Einnig eru höfð í huga sjónarmið kvennaréttarins sem rannsakar réttarstöðu kvenna til að bæta stöðu þeirra í réttinum og samfélaginu í heild.