15. Forkaupsréttur

Höfundur er: Þorvaldur Hauksson lögfræðingur.

Rit þetta fjallar um forkaupsrétt í íslenskum rétti. Aðallega er fjallað um almennar, ólögfestar reglur um forkaupsrétt en einnig er vikið að lögfestum reglum um efnið, sem þó eru af skornum skammti.

Markmiðið með er að draga upp heildstæða mynd af gildandi rétti og leita svara við einstökum álitaefnum sem kunna að vakna. Til grundvallar liggur rannsókn á íslenskum réttarheimildum um efnið.

Í forgrunni er ítarleg greining á dómum Hæstaréttar Íslands, frá 1920 til loka árs 2015, sem varða forkaupsrétt. Rannsóknin tekur jafnframt til norskra og danskra heimilda sem og dóma Mannréttindadómstóls Evrópu sem þýðingu hafa.

Í framkvæmd er algengt að stuðst sé við forkaupsrétt af einkaréttarlegum aðilum og opinberum aðilum til að standa vörð um hagsmuni sem kunna að tengjast ákveðnum eignum. Hagsmunir aðila réttarsambandsins, sem stofna til forkaupsréttar, geta á hinn bóginn verið ósamrýmanlegir og skapað togstreitu þeirra á milli.

Ágreiningur í tengslum við forkaupsrétt lýtur iðulega að því hvert sé svigrúm eiganda forkaupsréttarandlags til ráðstafana þess og hvenær hagsmunir forkaupsréttarhafa takmarki það. Það má því ljóst vera að mikilvægt er að réttarstaðan sé skýr þegar samið er um forkaupsrétt eða kveðið er á um hann í lögum svo komist verði hjá óvissu þegar kemur að beitingu hans.

Ritið skiptist í þrjá hluta.

  • Í I. hluta er fjallað um ýmis almenn atriði er lúta að forkaupsrétti. Vikið er að inntaki réttarins, samspili hans og nokkurra grundvallarreglna eigna- og samningaréttar, uppruna og þróun reglna um forkaupsrétt, stofnun og grundvelli forkaupsréttar og túlkun forkaupsréttarheimilda.
  • Þungamiðja ritsins er í II. hluta en þar er m.a. fjallað um hvenær forkaupsréttur verði virkur, þ.e. í hvaða tilvikum og við hvaða tímamörk, hvort eiganda forkaupsréttarandlags og þriðja aðila sé heimilt að hætta við ráðstöfun eftir að forkaupsréttur er orðinn virkur og ákvörðun forkaupsréttarhafa um að neyta réttarins.
  • Í III. hluta er fjallað um framfylgd forkaupsréttar, úrræði forkaupsréttarhafa og þriðja aðila telji þeir að á rétti sínum hafi verið brotið og við hvaða aðstæður forkaupsréttur líður undir lok.

Ritið er ætlað lögfræðingum sem í störfum sínum fást við réttarreglur um forkaupsrétt sem og laganemum og öðrum þeim sem hafa áhuga á að kynna sér viðfangsefnið.

Ritið er uppselt.