18. Vinnsla persónuupplýsinga við meðferð stjórnsýslumála
Út er komið hefti nr. 18 í ritröð Lagastofnunar Háskóla Íslands, Vinnsla persónuupplýsinga við meðferð stjórnsýslumála, eftir Pál Hreinsson forseta EFTA-dómstólsins og rannsóknarprófessor við Lagadeild HÍ.
Í ritinu er fjallað um vinnslu persónuupplýsinga við meðferð stjórnsýslumála í íslenskum rétti. Meginviðfangsefni ritsins lýtur að því hvernig ákvæði laga nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga auk reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2016/679 hafa þýðingu fyrir málsmeðferð stjórnvalda þar sem fyrirhugað er að taka stjórnvaldsákvörðun.
Ákvæði ofangreindra laga hafa þýðingu þegar persónuupplýsingum er safnað, þær skráðar og með þær unnið við úrlausn stjórnsýslumála. Lögin hafa einnig að geyma ákvæði um réttindi hins skráða sem geta haft þýðingu við meðferð stjórnsýslumála, t.a.m. fræðsluskyldu gagnvart honum og upplýsingarétt hans.
Í ritinu er fjallað um ofangreind atriði frá sjónarhóli stjórnvalda og dregin fram þau sérsjónarmið sem eiga við þegar stjórnvöld eru ábyrgðaraðilar vinnslu. Lög nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga er að finna í viðauka aftast í ritinu, ásamt reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2016/679.
Nýverið setti Lagastofnun á fót rannsóknarstofu í stjórnsýslurétti en stjórn hennar skipa Páll Hreinsson, Trausti Fannar Valsson og Maren Albertsdóttir. Hlutverk stofunnar er að efla og stunda rannsóknir á sviði stjórnsýsluréttar. Ritið sem hér um ræðir er fyrsta rannsóknarafurð stofunnar og eru fleiri slíkar í farvatninu.
Hægt er að panta ritið með tölvupósti á netfangið lagastofnun@hi.is. Ritið er einnig fáanlegt í Bóksölu stúdenta og í bóksölu Úlfljóts.
Einnig er hægt að gerast áskrifandi að ritröð Lagastofnunar. Áskrifendum bjóðast sérkjör á nýjum heftum í ritröðinni og fá þau póstsend jafn óðum og þau eru gefin út. Hægt er að gerast áskrifandi með því að fylla út rafrænt eyðublað eða með tölvupósti á netfangið lagastofnun@hi.is.