9. Þjóðin og kvótinn: Um íslenska fiskveiðistjórnkerfið 1991 -2010 og stjórnskipuleg álitaefni

Höfundur: Helgi Áss Grétarsson lögfræðingur en Stefán Már Stefánsson prófessor er ritstjóri og hafði faglega umsjón.

Stjórn fiskveiða í atvinnuskyni er mikilvæg fyrir íslenskt samfélag, m.a. vegna þess hve sjávarútvegur leikur stórt hlutverk í þjóðarbúskapnum. Eðlilegt er að skiptar skoðanir séu um fiskveiðilöggjöfina og hvernig haganlegast sé að ná þeim markmiðum sem að er stefnt.

Frá ársbyrjun 1991 til þessa dags hefur fiskveiðistjórnin aðallega verið reist á meginreglum aflamarkskerfisins.

Það er grundvallaratriði í íslenska aflamarkskerfinu að vernda á nytjastofna sjávar með árlegum ákvörðunum stjórnvalda um heildaraflatakmarkanir.

Þessum árlega heildarafla hefur verið skipt á milli einstakra útgerðaraðila og eru aflaheimildir framseljanlegar að vissum skilyrðum uppfylltum.

Þessi meginskipan hefur m.a. vakið upp stjórnskipuleg álitaefni er lúta að jafnræði fyrir lögum, eignarrétti og atvinnufrelsi.

Eitt helsta markmið þessa rits er að veita aðgengilegt yfirlit um íslenska fiskveiðistjórnkerfið og lagalegan grundvöll þess á tímabilinu 1991–2010. Ritinu er einnig ætlað að varpa ljósi á þau stjórnskipulegu álitaefni sem hafa vaknað í tengslum við aflamarkskerfið.