19. Dómar um umboðssvik í kjölfar bankahrunsins
Út er komið hefti nr. 19 í ritröð Lagastofnunar Háskóla Íslands, Dómar um umboðssvik í kjölfar bankahrunsins, eftir Eirík Tómasson fyrrverandi dómara við Hæstarétt Íslands.
Í ritinu er gerð grein fyrir dómum Hæstaréttar í málum tengdum efnahagshruninu árið 2008 þar sem einstaklingar voru ákærðir fyrir umboðssvik, en ritinu er ætlað að bæta úr skorti á fræðilegri umfjöllun um þessa dóma.
Í ritinu er fjallað um megineinkenni og skilyrði umboðssvika, sem lýst eru refsiverð í 249. gr. almennra hegningarlaga, og hvernig auðgunarásetningur samkvæmt 243. gr. hegningarlaga horfir við því broti.
Þá er leitast við að svara þeirri spurningu hvort niðurstöður í umræddum dómsmálum séu í samræmi við viðtekna skýringu á þessum refsiákvæðum, en í því efni er einkum stuðst við fræðiskrif Jónatans Þórmundssonar, fyrrum prófessors í refsirétti við lagadeild Háskóla Íslands.
Hægt er að panta ritið með tölvupósti á netfangið lagastofnun@hi.is. Ritið verður einnig fáanlegt í Bóksölu stúdenta og í bóksölu Úlfljóts.
Einnig er hægt að gerast áskrifandi að ritröð Lagastofnunar. Áskrifendum bjóðast sérkjör á nýjum heftum í ritröðinni og fá þau póstsend jafn óðum og þau eru gefin út. Hægt er að gerast áskrifandi með því að fylla út rafrænt eyðublað eða með tölvupósti á netfangið lagastofnun@hi.is.